Vissir þú þetta um notendur?
Sóldís Guðbjörg Ólafsdóttir
Sérfræðingur í notendaupplifun
30. mars 2023
4 mín lestur
Vissir þú að…
🧭 Notendur geta haldið athygli að meðaltali í 8 sekúndur.
Sem þýðir að allt sem sett er fram til að fanga athygli notanda verður að taka mið af því. Hversu lengi er veflausn að hlaða upp? Er textinn of langur? Eru myndir eða aðferðir sem ná að endurhlaða athyglina? Við verðum að vera viss um að notendur skilji vöruna, því ef þau finna ekki það sem leitað er að innan þessa tímaramma þá er umhugsunarlaust leitað annað. Þar er hvorki leti né þekkingarleysi um að kenna, notendum er eðlislægt að reyna að velja úr og forgangsraða þeim milljónum áreita sem á þeim lenda. Við erum hér til að auðvelda þeim lífið, hjálpa þeim að greiða í gegnum þessi áreiti og þessar flækjur sem heimurinn er og einfalda þeim lífið. Talandi um athygli…
👁️ Notandi skannar vefsíðuna þína, en hann les ekki allt sem þú setur á síðuna
Talað er um að notendur lesi í “F” til að skanna yfir síðuna. Allt fer það þó eftir uppsetningu á veflausninni og því skiptir hún rosalega miklu máli. Hægt er að gjörbreyta ásýndinni, ekki bara með uppfærslu og breytingum á texta og myndum heldur með því að passa að réttu upplýsingarnar séu á réttum stað. Notendur skoða líka miklu frekar myndrænt efni en texta. Mundu, við höfum bara 8 sekúndur. Talandi um gott notendaflæði…
Notendaupplifun
🤔 Notendum er alveg sama hversu frábær þér finnst varan þín vera
Um 80% af smáforritum sem eru sett á markað mistakast. Að gera ráð fyrir að þín hönnun og þín hugmynd sé frábær er ekki nóg. Hvort varan virki í raun og veru er í höndum notenda. Það eru um 3,55 milljónir smáforrita a Google Play Store og 1,64 milljón á App Store. Hraði í þróun hefur aldrei verið meiri, því hefur aldrei verið mikilvægara að gera notendaprófanir og spyrja þá sem í raun hafa valdið (notendur) hvað þeim finnst um vöruna og hvort þú sért í raun að leysa vandamál þeirra á réttan hátt. Talandi um að leysa vandamál notenda…
🥇 Það er MUN ódýrara að halda í núverandi viðskiptavini en að fá nýja
Það er talið allt að þrisvar til fimm sinnum ódýrara að halda í núverandi viðskiptavini og samstarfsaðila. Það þýðir ekki að þú getir sparað með því að einbeita þér eingöngu að núverandi hagaðilum en þú verður að hugsa vel um þau og sýna þeim að þau skipta máli. Þau notuðu tilfinningarnar þegar þau völdu þig á sínum tíma, það þarf að fara vel með þær tilfinningar. Talandi um tilfinningar…
❣️ Notendur treysta þér betur ef þú sýnir berskjöldun og einlægni
Undirstaða trausts í samskiptum snýr að berskjöldun. Notendur nota tilfinningar mun meira í kaupum en rökhugsun. Því er mikilvægt að skilja hvaða tilfinningar verið er að kalla fram, vera opin með hvað þú stendur fyrir og sýna hver þú ert, leyfa notendum að kynnast þér í raun og veru. Talandi um að að kynnast….
🥸 Notendur nota vöruna þína til að sýna eigin persónuleika
Við erum ein stór tilfinningarvera og viljum alltaf tilheyra einhverju. Við löðumst að ákveðnum eiginleikum og viljum tilheyra hópi sem við tengjum við. Sama á við um vörumerki. Vertu viss um að vörumerki þitt hafi ákveðinn persónuleika og hann sé alltaf alveg eins í gegnum alla miðla. Því þínir notendur nota þitt vörumerki til að sýna öðrum hvers konar persónuleikar þau eru og finna sinn hóp í samfélaginu. Ef þú ert ekki viss um hvernig persónuleiki vörumerkið þitt er, hvernig á notandinn að vita það?
Heimildir: