Komdu fagnandi 2024
Telma Hrönn Númadóttir
Verkefnastjóri
31. janúar 2024
3 mín lestur
Það er víst við hæfi á þessum tímamótum að líta bæði um öxl og fram á við
Það urðu mikil tímamót hjá okkur á árinu enda breyttum við um nafn og ásýnd eftir langan aðdraganda. Nýtt logo, ný vefsíða og svo fluttum við í nýjar höfuðstöðvar og höfum komið okkur vel fyrir á Suðurlandsbrautinni með útsýni yfir Esjuna og Laugardalsvöll. Allskonar nýtt og allskonar skemmtilegt.
Ráðgjöf
Hönnun
Forritun
Verkefnastjórnun
Verkefni
Verkefnin hafa verið mörg og margbreytileg en umfram allt gefandi og skemmtileg.
Við höfum fjárfest miklum tíma í áframhaldandi þróun á umsóknarkerfi Ísland.is. Umsóknarkerfið heldur utan um mikið magn flókinna og viðamikilla umsókna og þó að kerfið sé gott er þar víða hægt að breyta og bæta og við hlökkum til að bæta kerfið enn fremur fyrir notendur Ísland.is. Nýlega var þróað stjórnborð fyrir stofnanir sem auðveldar þeim umsýslu fyrrnefndra umsókna og hefur þessarar viðbótar verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Meðfram þróun á kjarnavirkni umsóknarkerfisins höfum við unnið að uppsetningu og endurbótum á stökum umsóknum og þjónustuferlum á vegum hins opinbera, allt hluti af þeirri stafrænu vegferð sem Stafrænt Ísland heldur utan um af miklum sóma.
Samstarfið við Stafrænt Ísland hefur verið bæði gott og gjöfult fyrir alla aðila og opnað á alls konar möguleika og ekki síður samstarf við fjölda áhugaverðra fyrirtækja og stofnana. Okkur gafst kostur á að senda fulltrúa yfir haf og lönd til að segja frá samstarfi okkar í franska þinginu í París auk þess sem við tókum á móti fulltrúum ríkisstjórnar Barbados og sýndum þeim alla þá möguleika sem umsóknarkerfið hefur upp á að bjóða. Virkilega gaman að sýna á hversu framarlega okkar litla land stendur þegar kemur að stafrænni þjónustu hins opinbera.
Við höfum líka unnið mikið með Reykjavíkurborg og höfum að jafnaði verið með tvo forritara með fasta viðveru í Borgartúninu til að styðja Reykjavíkurborg í þeirra stafrænu vegferð. Þau verkefni sem við höfum unnið í á árinu eru t.d Sorphirðudagatal til að hjálpa íbúum Reykjavíkur að fylgjast með hvenær sorpið er hirt á heimilum þeirra og fleiri verkefni sem fyrst og fremst snúa að framsetningu gagna á góðan og aðgengilegan hátt
Við höfum sett upp nokkrar minni vefsíður, tekið að okkur ýmis hönnunarverkefni og sett upp fjölda áhugaverðra sérhæfðra veflausna. Við erum á lokametrunum í krefjandi verkefni með Landsneti. Verkefnið snýr að þróun á nýju viðmóti fyrir skráningar á bilunum í raforkukerfinu. Þetta er viðamikið og tímafrekt skráningarferli, gögnin er verulega flókin og ekki á hvers manns færi. Markmið þessa verkefnis var að einfalda viðmótið til að fleiri geti tekið að sér skráningar á truflunum og að spara tíma starfsmanna með því að helminga skráningartímann.
Við settum líka upp mínar síður og reikningayfirlit fyrir fyrirtæki og félagasamtök m.a fyrir Kennarasamband Íslands en við höfum átt í góðu viðskiptasambandi við það ágæta félag í nokkur ár núna. Nýjum mínum síðum er fyrst og fremst ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna og einfalda þeim að sækja um þá styrki sem eru í boði og þannig fækka símtölum og tölvupóstum inn í þjónustuver, auk þess að einfalda þróun á kerfinu til framtíðar. Margt spennandi framundan á árinu hjá vinum okkar hjá kennarasambandinu
Í upphafi ársins settum við okkur það markmið að kafa dýpra í heim gervigreindar, vettvang sem er að verða órjúfanlegur þáttur í nútíma viðskipta- og tækniumhverfi. Með þetta markmið að leiðarljósi, fórum við af stað í ferðalag sem skilaði af sér verkefnum á sviði gervigreindar, sem við erum spennt að kynna ykkur fyrir í náinni framtíð. Við höfum ráðið til okkar forritara með yfir 10 ára reynslu á sviði gervigreindar. Þessi reynsla og þekking kemur til með að vera ómetanleg í að leiða okkur í gegnum flókin verkefni á þessu áhugaverða sviði.
Á síðasta ári byrjuðum við líka í vöruþróun, fengum til þess styrk frá Rannís í formi skattaafsláttar og gætum ekki verið spenntari fyrir komandi tímum. Við munum svo sannarlega segja ykkur meira frá því áður en langt um líður.
Og nú er komið 2024 og við erum hrikalega til í það, við ætlum að halda okkur við nafnið og nýja húsnæðið en ætlum að taka öðrum breytingum og áskorunum fagnandi og halda áfram að vaxa og dafna.