Rafræni verkfærakassinn

author

Telma Hrönn Númadóttir

Verkefnastjóri
3. mars 2022

Sem einn af síðustu Íslendingum sem sat í lögbundinni einangrun velti ég fyrir mér þeim breytingum sem faraldurinn hefur haft í för með sér. Mikið hefur verið ritað og rætt um þær áskoranir og verkefni sem COVID-19 hefur fært okkur og eins um þá ótrúlegu útsjónarsemi og aðlögunarhæfni sem við svo augljóslega búum yfir.

Ólíkum verkefnum hefur verið fundinn farvegur innan margbreytilegra tæknilegra lausna og allt frá daglegum stöðufundum til árshátíða stórfyrirtækja hefur verið fundinn vettvangur innan hinna ýmsu ólíku fjarfunda- og samvinnutóla.

Ég hóf sjálf störf í miðjum faraldri, kynntist fjölda fólks eingöngu í gegnum skjáinn og öðrum með grímur. Þó ég kjósi persónulega frekar að vinna með fólki í persónu held ég að þessi tími hafi mótað okkur og breytt ákveðnum þáttum starfs okkar til frambúðar. Það er síður þörf á að fresta hlutum þó einhver sé ekki á staðnum, sveigjanleikinn er kominn til að vera.

Undanfarin ár, frá því vel fyrir heimsfaraldur reyndar, hef ég eytt miklum (mögulega of miklum) tíma í að skoða hin ýmsu rafrænu tól ætluð til að einfalda mér vinnuna. Verkefnastjórnunartól, samþættingar og samvinnutól. Allt myndrænt, sem gefur góða yfirsýn og hjálpar mér að sjá forgangsröðun og mikilvægi veitir vellíðan, ég ætla ekki að ljúga. Og ekki minnkaði áhuginn þegar fjarvinna varð skyndilega almenn og sjálfsögð.

Stefnumótunardagur Norda fór fram á björtum og fögrum degi í miðjum heimsfaraldri og þurftum við, auk þess að setja niður áætlun og dagskrá fyrir daginn, að ákveða með hvaða hætti dagurinn ætti að fara fram enda ekki ljóst þegar undirbúningur hófst hvort starfsmenn mættu allir mæta í vinnu eða ekki. Svo fór að ákveðið var að styðjast við rafrænar lausnir og nota Miro til verksins. Við þá ákvörðun var staðið þó svo að dagurinn hafi hentað fullkomlega út frá fjöldatakmörkunum og covid smitum og allir starfsmenn gátu mætt á staðinn og tekið virkan þátt í vinnustofunni.

Úr varð ótrúlega skemmtileg blanda þar sem litlir hópar settust niður saman, ræddu strauma og stefnur, ógnanir og tækifæri og svo var Miro notað til að taka upplýsingarnar saman á lifandi og skemmtilegan hátt.

Verkefnastjórnun

Að nota samþættingartól eins og Miro bauð sannarlega upp á ferskar nýjungar í stefnumótunarvinnunni. Skemmtileg verkefni í aðdraganda dagsins þar sem hóparnir saman og einstaklingarnir hver fyrir sig leystu verkefni sem kenndu á tólið á virkan hátt myndaði um leið skemmtilega stemningu fyrir deginum. Sjá stórkostlega sjálfsmynd undirritaðrar þessu til staðfestingar. Umræðan á vinnudeginum sjálfum fór fram á nokkuð hefðbundinn hátt en Miro nýttist svo aftur við samantekt og skemmtilega framsetningu á niðurstöðum. Starfsmenn höfðu svo áfram aðgengi að borðinu og gátu því melt það sem fram fór og velt upp spurningum og athugasemdum í framhaldinu. Þessi blanda er að öllum líkindum komin til að vera, amk hjá okkur þó ég ætli ekki að fullyrða að ég verði ekki búin að finna mér nýtt og spennandi leikfang fyrir næsta viðburð (allar ábendingar og tillögur velkomnar og mjög vel þegnar).